Bakgrunnur

Hvaða máli skiptir að fá réttlát starfstengd ummæli og hvað gerist í starfsferlinum ef sanngirni er ekki gætt í því?

Eftir atburðarás sem var vafasöm að ýmsu leiti, og menn viðurkenndu að ekki hefði mikið merkilegt gerst, var mér gert ljóst að ég myndi ekki starfa lengur á þeim vinnustað sem ég starfaði á. Ég spurði, í ljósi þess að ég hafði ekki gert nein veruleg mistök, og ég hafði átt góð samskipti við aðra samstarfsmenn, hvort að ég fengi ekki góð meðmæli svo ég gæti fundið mér annað starf? Þá svaraði æðsti yfirmaðurinn að „jú, jú, að sjálfsögðu ekkert mál“. Þegar kom að því að ég fór í burtu af þessum fyrsta vinnustað sem ég hafði unnið á að loknu námi talaði ég við æðsta yfirmanninn í kveðjuskyni, til að öruggt væri að ég færi í góðu. Ég minntist á loforðið um að ég fengi góð meðmæli. Þá sneri æðsti yfirmaðurinn loforðinu algerlega við og sagði kuldalega að „ég mun ekki geta gefið þér nein meðmæli.“ Engar skýringar gaf hann á ástæðum þessa. Eftir erfiða framkomu í inn garð í tæpa fjórtán mánuði fannst mér ekki ráðlegt að spyrja nánar. Millistjórnandinn sagði við mig í kveðjuskyni, að henni og æðsta yfirmanninum hefði ekki litist vel á mig þegar ég var ráðinn. „Af hverju réðuð þið mig þá í starfið“ spurði ég, en fékk ekki svör.

Þessi viðskilnaður var alveg út í hött, enda viðurkennt að ég hefði unnið vel og ekki gert nein teljandi mistök, ef þá einhver. Ég skildi ekki fyrr en talsvert síðar hver gæti verið hugsanleg ástæða fyrir þessum kaldrifjaða viðskilnaði. Á þessum tíma vissi ég ekki hvað var að gerast á Alþingi, það var hálfu ári síðar, og því vissi ég ekki um hugsanleg hagsmunaátök sem gætu hafa verið í gangi bakvið tjöldin. Ég vissi ekki um mína heildarstöðu í þessu máli fyrr en hálfum áratug síðar. En jafnvel í dag eru engar haldbærar sannanir fyrir hendi um það hvað var í gangi þarna.

Þetta var alvarlegt mál. Ég var þarna að leita mér að vinnu annars staðar. Viðskiptafræðingar fást við viðkvæmar upplýsingar, og taka jafnvel ákvarðanir, og vill fólk fá að heyra hvernig viðkomandi sé áður en viðkomandi er ráðinn í starf. Ef mér tækist að komast í atvinnuviðtal var augljóst að viðkomandi vildi vita hvernig dóma ég fengi frá fyrri vinnustað, sem var eini vinnustaðurinn sem ég hafði unnið á með þessa menntun. Ég hafði verið rændur réttu starfstengdu mannorði, og í staðinn sagt að ég ætti að fá þann dóm að það „væri ekki hægt að veita þessum manni nein meðmæli.“ Þetta var sérlega óréttlátt og upplogið starfstengt mannorð. Með svona umsögn væri útilokað að ég yrði ráðinn í starf sem hæfði menntuninni sem ég hafði eytt fjórum árum í að ná mér í, og ekki síst það sem væri frá þessum vinnustað sem var mjög virtur og æðsti yfirmaðurinn einn af mestu áhrifamönnum í samfélaginu.

Ef æðsti yfirmaðurinn, millistjórnandinn, og þessi vinnustaður segðu að ekki væri hægt að veita mér nein meðmæli, myndi ég þá ekki bara finna einhvern annan sem væri til í að veita mér meðmæli? Nei, viðkomandi myndi segja að þau sem ég hafði unnið hjá ættu að gefa meðmæli, enda þau einu sem væru talin réttbær til að veita umsögn um hvernig væri að hafa mig í vinnu, með þeirri menntun sem ég hafði aflað mér. Fólk gerir auðvitað ráð fyrir að umsögn um menn sé sanngjörn og segi rétt frá. Ef fólk hefur í ofanálag veður af því að eitthvað neikvætt hafi verið til staðar vill það enn síður stíga inn í og gefa jákvæð ummæli. Þar er skuldinni enda oftast skellt á þann sem lenti í, undirmanninn, en ekki talið að um ósanngirni af hendi yfirmanna sé að ræða. Yfirmenn hafa ráðandi stöðu, og njóta vafans. Fólk styður síður þann sem gengur illa.

Þurfti ég þá ekki bara að finna mér einhverja vinnu, vinna þar og standa mig vel, og vinna mér þar með inn réttlát og sanngjörn ummæli um mín störf? Sú staðreynd að ég gat ekki fengið sanngjörn meðmæli frá þessum fyrsta vinnustað, ummæli um að það væri í lagi að hafa mig í vinnu og ég hefði staðið mig vel, sem var þó staðreynd málsins, leiddi einmitt til þess að ég gat ekki fengið aðra vinnu við hæfi, þar sem ég gæti svo unnið mér inn gott orðspor.

Ég sótti um vinnu fljótlega og komst í atvinnuviðtal. Viðmælanda þar leist mjög vel á, enda árangur í námi góður og ég hafði gert ýmislegt glæsilegt meðfram náminu. Henni leist líka afar vel á að ég hefði unnið á þeim vinnustað sem ég hafði verið á, enda staðurinn virtur. Hún sagðist bara þurfa rétt að heyra í mínum fyrsta vinnustað, og virtist sem að hún teldi það nánast bara formsatriði. Eftir að hún hafði talað við þá heyrði ég ekki frá henni. Ég hringdi svo en þá hljómaði hún mjög breytt. Næstu árin sótti ég um mörg hundruð störf, en komst aldrei í atvinnuviðtal hjá neinu ráðningarfyrirtæki. Ég fékk lausaverkefni sem verktaki hjá afar góðu fyrirtæki, eftir meðmælum frá einni af stofnunum háskólans, og var mikið af verkefnum sem þurfti að vinna og minn taxti mjög hagstæður. Þetta fyrirtæki kom í ljós að var nátengt fyrri vinnustaðnum gegnum hluthafatengsl. Einn daginn var skyndilega skrúfað fyrir verkefnið, þó að verkkaupi hefði verið afar ánægður með vinnubrögðin, og mikið væri enn óunnið af öðrum verkefnum. Mér var gert að hætta strax án skýringa, og varð ekki meira úr því.

Gat ég þá ekki fengið mér bara einhverja vinnu, sagði fólk? Og unnið mig upp þaðan? Ekki gat ég fengið vinnu eða verkefni sem krefðist annars konar menntunar, háskóla- eða iðnmenntunar enda ekki með slíka menntun. Þá var spurning hvort ég gæti ekki fengið eitthvað starf sem ófaglærðir gengju í? Þar væri ég með laun sem væru kannski helmingur eða einn þriðji sem ég ætti að geta haft verandi í starfi sem hentaði minni menntun. Og ekki var víst að slíkt ófaglært starf myndi henta frábærlega eða að ég væri talinn rétti aðilinn í slíkt starf. Það myndi líka líta sérkennilega út að ég væri í slíkri vinnu, en ekki í vinnu sem hæfði minni menntun. Ekki hafði almennt séð verið erfitt fyrir fólk með mína menntun að fá vinnu, og alls ekki víst að andrúmsloft yrði vinsamlegt. Í slíkri vinnu gæti ég mun síður unnið mér inn gott starfstengt mannorð sem tengdist því að vinna starf sem hæfði minni menntun. Frekar mætti gera ráð fyrir að mitt menntunar- og starfstengda mannorð yrði fyrir miklum skemmdum í slíku starfi.

Þessu til viðbótar kom annað, að mánuðirnir liðu hratt þar sem ég var atvinnulaus. Bilið þar sem ég var ekki í starfi breikkaði. Eftir sex mánuði í atvinnuleysi er starfsferillinn farinn að líta illa út, segir fólk hjá ráðningarþjónustum. Sex mánuðir liðu, eitt ár, eitt og hálft ár. Verandi tekjulaus þá var þetta mjög erfitt. Þá rofaði loks til í atvinnumálum, en sú lausn entist skammt sem er ekki farið í nánar hér. Eftir það, þá hefur staðan litið illa út, og það er ekkert lögmál sem virkar þannig, að eftir tiltekið langan tíma þá allt í einu lagist hlutir. Staðan versnar með tímanum, staðan batnar ekki. Það er ekki svo að maður geti alltaf “fengið sér vinnu” ef maður reyni nógu mikið. Fólk gerir sér enda ekki grein fyrir hvað það þýðir að missa starfstengt mannorð, enda mjög sjaldgæft að slíkt gerist með ranglátum hætti, og því fáir sem hafa reynslu af því hvernig slíkt er í raun. Ég vann að því að byggja upp verkefnaþjónustu, en fyrir mann sem fær ekki vinnu við sitt fag er ekki endilega auðvelt að fá verkefni, eða fá þau borguð.

Ég var því í þeirri stöðu að geta ekki sýnt fram á árangursríkan starfsferil, hafði ekki viðeigandi meðmælendur þegar kom að umsögn um árangur í starfi, og vinir, kunningjar og ættingjar höfðu ekki nægan áhuga á að aðstoða enda skiljanleg tortryggni fyrir hendi. Hvernig átti ég að tala við ókunnuga á ókunnugum vinnustöðum, og sannfæra viðkomandi? Maður er býsna einn í heiminum í slíkri stöðu.

Þetta er ástæðan fyrir því hversu alvarlegt það er, ef maður fær ósanngjarna og ranga umsögn, eftir að hafa verið sagt upp á fyrsta vinnustað. Margir hafa alls ekki skilið, hvers vegna ég hef ekki “fengið mér vinnu” og halda að ég hafi einfaldlega ekki viljað vera í vinnu til að vinna fyrir mér, sem er alrangt. Ég er bæði hæfur, duglegur og metnaðarfullur sem sést af því sem ég var að gera með námi. Í bakgrunni þessa var mjög sérstæð staða og hagsmunadeilur í samfélaginu og pólitík, sem ég hafði flækst inn í án vilja til þess. Án þess að ég vissi af því var hægri og mið- sinnað Alþingi og ríkisstjórn að ákveða að gera það sama á Vatnajökli og ég hafði lagt til meðfram námi, þegar ég var að ljúka námi og reyna að byrja starfsferil. Líklega var það þess vegna sem að á sama tíma var gengið í að skemma mína möguleika á þátttöku á vinnumarkaði, með beinu inngripi. Þar voru hugsanlega á ferð aðilar sem voru lítið hrifnir af því sem Alþingi og ríkisstjórn voru að ákveða, og héldu kannski að ég, sem var fær um að setja saman og kynna Vatnajökulshugmyndirnar með þeim hætti að stjórnvöld ákváðu á mjög skömmum tíma að framkvæma það, væri líklegur til að gera meira af því sama. Kannski var vilji til að gera mig óvirkan á slíkum vettvangi. Það er mikill fautaskapur, en eina vitræna skýringin, en þó kunna persónulegir þættir einnig að hafa gert málið verra. Ég var sá eini í sögunni sem hafði lagt fram tillögur um slíka aðgerð á Vatnajökli, með mjög óvenjulegum en atvinnulífsvænum tillögum. Engar óskir eða tillögur komu frá öðrum aðilum í samfélaginu, sem er óvenjulegt upphaf svo risastórs máls. Það þarf því ekki að spyrja hver kom á framfæri þeim möguleika að gera þetta. Varla er hægt að segja að þetta framlag sem stjórnvöld notuðu hafi verið þakkað eða launað fyrir með viðeigandi hætti. Þetta er með ólíkindum furðuleg, en líka sorgleg, atburðarás.