Beiðni – texti bréfs

9. janúar 2018.

Tvær strategíur: Hinar óþekktu forsendur Vatnajökulsþjóðgarðs, og ósk um úrlausn mála

Beiðni til íslenska ríkisins og samfélagsins, frá Sverri Sv. Sigurðarsyni, www.sverrir.info

Íslenska ríkið er með Vatnajökulsþjóðgarð í fullum rekstri. Þjóðgarðurinn er sá stærsti í Vestur-Evrópu og gæti orðið mjög verðmætur sé miðað við opinberar áætlanir sem hafa verið gerðar. Þjóðgarðurinn er staðsettur þétt upp við Hálslón Kárahnjúkavirkjunar, sem er ekki tilviljun.

Þegar sagan er skoðuð, er ljóst að sú ákvörðun í upphafi máls að stofna þennan þjóðgarð byggðist án vafa að mjög stórum hluta á tveimur grunn hugmyndum, rökstuddum kenningum, eða „strategíum“ ef fólk vill nota það orð. Í fyrsta lagi var kenningin um að það væri hægt að styrkja náttúruímynd landsins með stóru svæði af þessu tagi, sem gæti orðið ferðaþjónustu í hag en líka öðrum greinum atvinnulífs. Þetta var því atvinnusköpunartillaga. Í öðru lagi var kenningin um að ef ákveðið væri að fara út í stórar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir, þá gæti verið hagstætt að stofna stórt náttúruverndarsvæði á sama tíma, og gæti virkjanabransinn jafnvel grætt á slíku. Þetta var því líka málamiðlunartillaga, og mjög óvenjuleg. Pólitíkin á þeim tíma kallaði heldur ekki á stórtæka náttúruvernd. Tillagan var að svæði á og kringum Vatnajökul gæti uppfyllt slíkt. Búast má við almennt að svo stór pólitísk ákvörðun um landið byggi á vítækum umræðum og óskum sem komið hafi frá samfélaginu öllu. Sögulegu gögnin sýna hins vegar, að opinberar og ítarlega unnar tillögur um svona aðgerð komust í hendur stjórnmálamanna frá aðeins einum einstakling. „Strategían“ sem lagði grunn að Vatnajökulsþjóðgarði í upphafi málsins var hugverk eins manns, sem er verulega óvenjulegt.

Það var Sverrir Sv. Sigurðarson, þá viðskiptafræðinemi við H.Í. sem gerði það, á árunum áður en Alþingi og ríkisstjórn ákváðu að stofna þjóðgarðinn. Þessi vinna tók mörg ár og mörg hundruð klukkustundir, og var ólaunuð, nettó. Undir lokin voru því miður að hefjast gríðarlega harðar hagsmunadeilur um virkjanaframkvæmdir. Þar mættust stálin stinn um árabil, en Sverrir tók engan þátt í þeim. Í stað þess að uppskera dálitlar þakkir og laun fyrir sitt stóra framlag, virðist sem Sverrir hafi lent í mjög langvarandi vandræðum með að byggja upp þátttöku í þjóðfélaginu, venjulegt líf og fjárhag, á þann hátt að ekki eru „eðlilegar“ skýringar á. Vítahringur varð til sem ekki var hægt að leysa, né leystist af sjálfu sér, sem hefur orðið viðvarandi. Þessu öllu er lýst í stuttri samantekt Tvær strategíur: Hin óþekkta saga Vatnajökulsþjóðgarðs. Meiri heimildir er einnig að finna í 282 blaðsíðna bókinni Skrefin að Vatnajökulsþjóðgarði. Einnig er rétt að benda til á kafla 5.2. 10+ atriði til reiðu, sem mætti vinna í frekar, og spurningu um hvað var að gerast síðustu 80 ár á Íslandi?

Í ljósi þess að ríkið og þjóðin eru að nota viðamikla og verðmæta grunn strategíu sem var í upphafinu rannsökuð, þróuð og kynnt af Sverri, vill Sverrir óska eftir því af ríkinu, og af þjóðfélaginu í heild, að laun eða umbun fyrir hans framlag verði betri en þau hafa verið. það er ekki samfélaginu í hag að aðili sem hefur afhent því svona mál uppskeri gríðarlegt tjón. „Launin“ sem Sverrir óskar eftir eru ekki flókin. Þau eru að fjárhagur lagist og hann geti eins og aðrir orðið virkari þátttakandi í starfi og verðmætasköpun samfélags, sem hæfi menntun og hæfileikum. Vilji annarra ræður miklu í þessu. Þetta verður að skýra enda er orðið ljóst eftir allan þennan tíma að mál munu ekki lagast af sjálfu sér.

Hér með er þetta stóra mál opnað og útskýrt, sem hefur verið flestum hulið. Margt mun örugglega koma fólki á óvart, og það má læra talsvert af þessu líka. Samantektin og fleira eru á vefnum www.sverrir.info. Þú mátt svara og koma með uppástungur, og einnig kynna þetta fyrir öðrum. Ég hef áhuga á að ræða málin og framtíðina við velviljað fólk sem skilur heildarmynd samfélagsmála.

Með fyrirfram þökk, Sverrir Sv. Sigurðarson, viðskiptafræðingur. S: 864 0023. sverrir@sverrir.info.

Til baka til samantektarsíðu

Til baka til yfirlitssíðu íslensks efnis