Til baka til yfirlitssíðu íslensks efnis Þetta stutta yfirlit yfir söguna rekur umræðuna og atburðarásina sem var formlega og opinberlega varðandi þá hugmynd, að friðlýsa Vatnajökul og nágrenni til að skapa eitt stórt náttúruverndarsvæði eða þjóðgarð. Bæði eru hnitmiðaðar tillögur og dreifðari hugmyndir tilteknar, sem og atburðarásin í kringum þessar tillögur eins og kostur er. Opinber umræða hjá almenningi var engin. Vísað er í hvert atriði með Blaðsíðutalinu þarsem atriðið er að finna í bókinni. Fyrra Blaðsíðutalið vísar í efnið sjálft sem sett var fram, en seinna Blaðsíðutalið í lýsingu á atburðarás kringum það atriði. 1985-1991: Eftir góðæri á Íslandi á seinni hluta 9. áratugarins kom kreppa á Íslandi. Fólk missti vinnu og tekjur, fyrirtæki urðu gjaldþrota. Sverrir Sv. Sigurðarson tók eftir því að lítið var um að leitað væri skipulega að nýjum tækifærum til að skapa atvinnu, en meira um þras. Sverrir taldi að þörf væri á nýjum tillögum og tækifærum. 1992: Sverrir skrifaði grein í Morgunblaðið í október, til að rökstyðja að ekki ætti að leggja raflínu yfir Ódáðahraun. (Blaðsíður 26 og 189.) Mikil umræða var um verkefnið, en grein Sverris var líklega sú fyrsta í sögunni sem rökstuddi náttúruvernd með markaðsrökum. Hann lagði til að þessu stærsta ósnortna svæði í V-Evrópu að því er sagt var væri haldið ósnortnu, því þannig væri það verðmætara fyrir náttúruímynd Íslands og ferðaþjónustu, sem gæti skapað ný störf. 1993: Sverrir fór í rólegheitum að þróa nánar hugmynd um leið til að styrkja ímynd Íslands, og skapa verðmæti fyrir atvinnulíf og ný störf. Tækið til að gera það kleyft væri það, að halda ósnortnu víðerni í því ástandi, og friða það. (Blaðsíða 190.) Í október var haldið 8. Náttúruverndarþingið. Á þinginu lagði Kári Kristjánsson fram tillögu að Eldfjallafriðlandi, svæði norð-norðvestan Vatnajökuls, sem hann hafði unnið með Bryndísi Brandsdóttur. Ályktun samþykkt (þ.e. formleg tillaga) um friðlandið á þinginu. (Bls. 28 og 196.) Á Náttúruverndarþingi lagði Hjörleifur Guttormsson einnig ásamt öðru fram ábendingar, einnar blaðsíðu lista með nöfnum 17 svæðum á Austurlandi sem hann taldi að mætti gera að þjóðgörðum eða öðrum verndarsvæðum. Engin greinargerð eða upplýsingar fylgdu listanum. Eitt af svæðunum 17 var Vatnajökull, og er þetta mjög líklega í fyrsta sinn sem kemur fram hugmynd opinberlega að friðlýsingu Vatnajökuls. Listi hinna 17 svæða var ekki tekinn til atkvæða á þinginu en var vísað til Náttúruverndarráðs, en ekkert varð úr frekari umræðu þar. (Blaðsíður 32 og 197.) 1994: Sverrir hélt áfram að þróa tillögu, sem var orðin að tillögu um friðun Vatnajökuls og nágrennis í eitt stórt svæði. Hann var þó ekki í sambandi við Hjörleif og hafði ekki heyrt af hans tillögu. Leitað var upplýsinga víða. (Blaðsíða 200.) Sverrir gerði fyrirspurn í Morgunblaðinu til stjórnarformanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Nordal, til að fá fram upplýsingar um umhverfisáhrif hugsanlegs sæstrengs. Jóhannes svaraði nokkrum dögum síðar. (Blaðsíður 33 og 203.) Sverrir tók saman lýsingu á hugmynd sinni um Vatnajökul á ensku, ásamt fleiri upplýsingum, og sendi til um 30 alþjóðlegra hótelfyrirtækja og bað um viðbrögð, til að sjá hvort að viðbrögð væru jákvæð eða neikvæð. Nokkur viðbrögð virtust nokkuð einlæg og raunveruleg, ásamt að hljóma jákvætt, og því taldi Sverrir að hugmyndin væri tæk til að vera kynnt opinberlega. Engin frekari samskipti urðu við þessi fyrirtæki. (Blaðsíður 35 og 201.) 1995: Í janúar birti Sverrir þrjár greinar í Morgunblaðinu, nærri heil síða hver, til að kynna hugmyndina að friðun Vatnajökuls, sem hann kallaði að gæti orðið „hornsteinn“ í ímynd landsins. Einnig voru frekari röksemdir kynntar frá ýmsum sjónarhornum. Daginn fyrir birtingu fyrstu greinarinnar fór Sverrir með bréf heim til allra þingmanna og ráðherra, þar sem þeim var bent á að kynna sér efni greinanna, en Sverrir hafði óskað eftir því að fyrsta greinin myndi birtast í fyrsta blaði ársins. (Blaðsíður 56, 59 og 63, og atburðarás bls. 205.) Upphaflega ætlaði Sverrir að láta blaðagreinarnar nægja. Með þeim væri búið að koma hugmyndinni á framfæri svo aðrir gætu skoðað. En svo bættust við skrefin í þessari vinnu, eitt skref í einu… Í febrúar tók Sverrir saman frekari útskýringar við hugmyndina í sérstöku hefti, og sendi með pósti til rúmlega 100 móttakenda. Þar á meðal voru allir þingmenn og ráðherrar, og ýmsir embættismenn og fólk sem ætla mætti að tengdust þessum málum. (Bls. 67 og 207.) Í febrúar fékk Sverrir bréf frá Birni Bjarnasyni, þá þingmanni, þar sem hann þakkaði vinsamlega fyrir skrifin með athugasemdum. Hann kom sjálfur með bréfið á Hagaflöt 4. (Blaðsíða 209.) Einnig kom kurteislegt bréf frá ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytis. (Blaðsíða 212.) Í apríl tók Sverrir saman annað hefti þar sem kynnt var hvernig hægt væri að stofna stærsta friðlýsta svæði í Vestur-Evrópu í einu skrefi, en það væri með því að friða þá hluta Vatnajökuls sem hefðu ekki friðlýsingu. Þessu var dreift til sama 100 manna hóps og áður. (Bls 82 og 209.) Í nóvember sendi Sverrir frá sér þriðja heftið á árinu, með pælingum um hugsanlegan sæstreng og hvernig samhengið væri milli slíkra hugmynda og hugmyndar um stærsta friðlýsta svæði í V-Evrópu með Vatnajökul sem miðpunkt. Hugsanlega gæti virkjana- og sæstrengsverkefni haft hag af því að til staðar væri stór þjóðgarður sem mótvægi við stóriðjuframkvæmdir. Þetta gæti því verið þáttur í að finna sáttaflöt milli náttúruverndar, virkjana og stóriðju. Slíkar hugmyndir myndu hefðbundnir náttúruverndarsinnar seint setja fram, sem sýnir að hugmyndir Sverris voru að mörgu leiti gerólíkar hugmyndum náttúruverndarsinna. Sverrir var enda með megin fókus á að styrkja stöðu atvinnulífs og skapa störf. Sverrir sótti gögn fyrir þetta m.a. með símtölum til Alþjóðabankans í Washington D.C. og við US BuRec sem er stofnun alríkisstjórnar USA sem sér um rekstur á stíflum og uppistöðulónum. Þessu var dreift á sama 100 manna hóp. (Blaðsíður 87 og 211.) Bréf kom frá skipulagsstjóra ríkisins, Stefáni Thors, sem benti Sverri á að taka þátt í samkeppni sem haldin yrði á næsta ári. (Blaðsíða 213.) Hjörleifur Guttormsson kynnti hugmynd að friðun Gerpissvæðisins, sem er austasti oddi Íslands, á árinu. Gerpir var eitt af svæðunum 17 á listanum sem hann kynnti á Náttúruverndarþinginu 1993. (Blaðsíða 200.) 1996: Í upphafi árs sendi Sverrir bréf til valins hóps, hluta af rúmlega 100 manna hópnum. Tilgangurinn var að rifja upp Vatnajökulshugmyndina og biðja formlega um svar, þar sem móttakandi gæfi sínar athugasemdir við þá hugmynd. Svar kom frá Landsvirkjun með mörgum spurningum til Sverris, sem Sverrir svaraði svo eftir bestu getu. Einnig kom bréf frá Náttúruverndarráði sem var tilkynning um að málið yrði kynnt. Sverrir heyrði ekki frekar frá Náttúruverndarráði, né frá Landsvirkjun. Einnig kom annað bréf frá Birni Bjarnasyni sem svar við þessari sendingu. (Blaðsíður 216 til 221, og bls. 214.) Sverrir sendi inn samkeppnistillögu í hugmyndasamkeppnina Ísland árið 2018, sem haldin var af Skipulagi ríkisins og umhverfisráðuneytinu, og hlaut 1.-3. verðlaun ásamt tveimur öðrum tillögum. Sverrir var eini námsmaðurinn sem fékk verðlaun, en annars tók aðeins fagfólk í arkitektúr og fleiru þátt, fyrir utan einn annan námsmann. (Blaðsíður 94 og 222.) 1997: Málþing var haldið í Norræna húsinu í janúar. Þar voru vinningstillögur í samkeppninni Ísland árið 2018 kynntar, og kynnti Sverrir vinningstillögu sína þar á meðal. Salurinn var fullur, og voru viðstaddir m.a. umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason, og líklega öll umhverfisnefnd Alþingis. (Blaðsíða 225.) Morgunblaðið hafði samband við Sverri í lok janúar og beiddist eftir viðtali, sem var auðsótt. (Blaðsíður 131 og 226.) Daginn eftir birtingu viðtalsins var forystugrein í Morgunblaðinu, þar sem því var lýst yfir að hugmynd Sverris ætti að vera ein af þeim kostum sem skoða ætti þegar mótuð væri framtíðarstefna um nýtingu hálendisins. Það er verulega óvenjulegt að Morgunblaðið birti forystugrein um hugmyndir háskólanema, og jafnvel einstakt á öldinni. (Blaðsíður 133 og 226.) Á 9. Náttúruverndarþingi í lok janúar og byrjun febrúar var áréttuð ályktunin um Eldfjallafriðland, sem átti að vera að mestu norðan við Vatnajökul. Þetta var sama hugmynd og árið 1993. (Blaðsíða 196.) Sverrir var beðinn að koma á fund hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands og kynna hugmyndir sínar, en Sverrir var ekki í þeim samtökum. Hann gerði það, og var hugmyndunum nokkuð vel tekið, sem kom Sverri þægilega á óvart. (Blaðsíða 226.) Sverrir sendi inn alveg ferska tillögu í ritgerðarsamkeppni Vísbendingar, tímarits um efnahagsmál. Tillagan fjallaði um hvaða áhrif mismunandi yfirgripsmikil friðun á Vatnajökli og nágrenni myndi hafa á möguleika á raforkuframleiðslu, bæði með vatnsafli og jarðhita, í mismunandi hagkvæmniflokkum slíkrar framleiðslu. Sverrir hlaut verðlaun Vísbendingar árið 1997. (Blaðsíður 134 og 228.) Sverrir var beðinn um að mæta á fund í Menntaskólanum við Hamrahlíð til að kynna sínar hugmyndir fyrir nemendum, sem hann gerði. Fimm voru mættir til að halda tölu, og stóðu fyrir mismunandi skoðanir. Einn þeirra var Hjörleifur Guttormsson sem hélt erindi um náttúruvernd á almennum nótum. Sverrir sagði hins vegar frá Vatnajökulshugmyndum sínum og sýndi glærur. (Blaðsíða 230.) Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður, hafði samband við Sverri og bað hann að koma og kynna sínar hugmyndir fyrir hópi af ungu fólki sem hún hafði á sínum snærum til að ræða ýmis mál í samfélaginu. Sverrir gerði það og var máli hans ágætlega tekið virtist vera. Henni þótti málið áhugavert, en hún varð umhverfisráðherra tveimur árum síðar, sem á þessari stundu var engan veginn ljóst. (Blaðsíða 230.) Um haustið voru deilur um tillögur að skipulagi hálendisins, þar sem gagnrýnt var að of mikil náttúruverndaráhersla væri í tillögunum. Sverrir aflaði gagna, pantaði bók frá Bandaríkjunum og skrifaði blaðagrein í Morgunblaðið. Þar var fjallað um jákvæð viðhorf almennings í Bandaríkjunum til útivistar og náttúruverndar, og það tengt við hugmynd um friðlýst svæði á og kringum Vatnajökul. (Blaðsíður 141 og 232.) Hákon Þ. Sindrason hafði samband við Sverri og lýsti áhuga á að fjalla um hugmyndir Sverris í meistaraverkefni frá Copenhagen Business School, sem var auðfengið. (Blaðsíða 233.) Þór Sigfússon hafði samband við Sverri og bauð honum að vera meðal höfunda í bókinni Hugmyndir – greinasafn. (Blaðsíða 233.) Hverjir aðrir en Sverrir höfðu talað fyrir hugmyndum um að friða Vatnajökul til að skapa stórt náttúruverndar og útivistarsvæði, eða þjóðgarð? Fyrir utan 17 svæða lista Hjörleifs árið 1993 hafði enginn lagt fram eigin hugmyndir um slíkt. Jöklar voru ekki tegund svæða sem náttúruverndarsinnar höfðu almennt áhuga á að friða. Náttúruverndarsinnar settu ekki fram hugmyndir með meginmarkmið að styrkja forsendur ferðaþjónustu og skapa störf, en það var megin tilgangur Sverris. Nú kom að því að einhver annar en Sverrir setti fram tillögu sem var á einhvern hátt tengd Vatnajökli, í fyrsta sinn frá 1993 (og þar með í annað sinn í Íslandssögunni virðist vera, samkvæmt sögulegum upplýsingum sem eru fyrir hendi). Hjörleifur Guttormsson sendi inn ítarlegar athugasemdir við skipulagstillögu fyrir hálendið, í desember 1997. Í athugasemdum sínum lagði hann til að afmarkað yrði svæði fyrir fjóra jöklaþjóðgarða, á hinum fjórum stóru jöklum Íslands. Vatnajökull var einn af þeim. Þarna var Hjörleifur að fjalla aftur um Vatnajökul, sem hann hafði ekki gert í opinberri umræðu í þessu samhengi frá árinu 1993, svo best er vitað. Hjörleifur talaði einnig á fundi á Austurlandi um þetta leiti, og kynnti þar einnig hugmyndina að fjórum jöklaþjóðgörðum. (Bls. 146 og 235.) Margir telja að þarna hafi fyrst komið fram tillaga eða hugmynd að friðun Vatnajökuls, og að Hjörleifur hafi einn staðið fyrir slíkri tillögugerð. Þessir minnast ekki á neinn annan. Þessu hefur verið imprað á víða, meðal annars af ýmsum áberandi aðilum, (ekki þó af Hjörleifi sjálfum). Vonandi er ástæðan þekkingarleysi á sögunni. 1998: Í febrúar lagði Hjörleifur Guttormsson fram þingsályktunartillögu á Alþingi að fjórum þjóðgörðum á jafn mörgum jöklum, Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Mýrdalsjökli (ásamt Eyjafjallajökli). (Blaðsíður 148 og 158, og 235.) Tillögunni var vísað til umhverfisnefndar, sem sendi beiðni ýmissa aðila í samfélaginu með beiðni um umsagnir við þingsályktunartillöguna. 32 umsagnir bárust, en engin þeirra minntist sérstaklega á Vatnajökul. (Blaðsíða 236.) Í nóvember birtist blaðagrein eftir Hákon Þór Sindrason, meistaranema við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Greinin var byggð á Cand. Merc. Meistararitgerð hans frá skólanum, sem fjallaði um ímynd Íslands og íslenskrar vöru og þjónustu erlendis. Í verkefninu, og í blaðagreininni, mælti hann með tillögu Sverris, hornsteini í ímynd Íslands með friðlýstu svæð á og kringum Vatnajökul, sem lausn til að styrkja ímynd Íslands. (Blaðsíður 159 og 237.) Í desember kom út bókin Hugmyndir – greinasafn. Formaður útgáfuráðs var Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Sverrir hafði verið beðinn um að vera meðal 22 ungra höfunda í bókinni sem komu úr ýmsum áttum, og áttu eftir að ná mjög langt sumir, ráðherrar, borgarstjóri, rektor, forstjórar, athafnamenn, með 20 greinar, en Sverrir var eini námsmaðurinn meðal höfunda. Sverrir skrifaði grein um ímynd og tengdi hana við hugmyndina að friðlýstu svæða á og kringum Vatnajökul. (Blaðsíður 161 og 238.) 1999: Þingsályktunartillaga Hjörleifs Guttormssonar um fjóra jöklaþjóðgarða var tekin fyrir á fundum í umhverfisnefnd Alþingis í febrúar. Ekki var pólitískur stuðningur við fjóra þjóðgarða í einu, en í staðinn setti Hjörleifur fram breytingatillögu um Vatnajökulsþjóðgarð aðeins. Nefndin var áhugasöm um þetta, og var það samþykkt að umhverfisnefnd myndi setja tillöguna fram. Þó hefur aldrei verið útskýrt hvers vegna áhugi var á Vatnajökli, en ekki á einhverjum af hinum jöklunum í upphaflegri tillögu Hjörleifs. Reyndar virðist enginn á Íslandi hafa spurt um það. Þingsályktunartillagan frá umhverfisnefnd um Vatnajökulsþjóðgarð var tekin til umræðu á Alþingi, og samþykkt þann 10. mars. Með því var þingsályktuninni beint til umhverfisráðherra. (Blaðsíður 168 og 172, og 239.) 2000: Þingsályktunin var til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu þar sem Siv Friðleifsdóttir var ráðherra. Hún bar svo upp tillögu á fundi ríkisstjórnarinnar þann 26. September. Var þar samþykkt að stofnaður skyldi Vatnajökulsþjóðgarður. Hann yrði því að veruleika! (Blaðsíða 240.) 2001-2008: Á árunum 2001-2008 var unnið að undirbúningi og skipulagningu, aðallega í þremur nefndum sem umhverfisráðherrar skipuðu. 2008: Þann 7. júní 2008 var Vatnajökulsþjóðgarður svo stofnaður formlega við athöfn í Skaftafelli. Hann hefur verið byggður upp og starfræktur síðan, með kerfi fjögurra svæðisstjórna og aðal stjórnar, ásamt framkvæmdastjóra og starfsliði. Til baka til yfirlitssíðu íslensks efnis
|